Selfoss vann stórleikinn – Hamar og Árborg úr leik

Ívan Breki Sigurðsson og Þórður Marinó Rúnarsson eigast við í leik Ægis og Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit Fotbolti.net bikarsins eftir 2-3 sigur gegn grönnum sínum í Þorlákshöfn í kvöld. Árborg og Hamar töpuðu sínum leikjum og eru úr leik, eins og Ægismenn.

Stórleikur 32-liða úrslitanna í neðrideildabikarnum var á Þorlákshafnarvell í kvöld þar sem Ægir tók á móti Selfossi. Ægismenn voru sprækari í fyrri hálfleik og Jón Jökull Þráinsson kom þeim yfir með skutluskalla af gamla skólanum strax á 8. mínútu. Á 19. mínútu fengu Ægismenn hornspyrnu og þar mætti Anton Breki Viktorsson á fjærstöngina og skallaði boltann í netið gegn uppeldisfélagi sínu.

Á 29. mínútu minnkuðu Selfyssingar muninn þegar þeir fengu vítaspyrnu eftir að fyrirgjöf í teignum fór í höndina á Jóni Jökli. Gonzalo Zamorano fór á punktinn og skoraði af öryggi og staðan var 2-1 í hálfleik.

Ekki voru liðnar nema fimm mínútur af seinni hálfleik þegar Selfyssingar fengu aðra vítaspyrnu. Nú fór fyrirgjöf af örstuttu færi í höndina á Antoni Breka en dómurinn var ansi harður þar sem Anton hafði höndina uppvið líkamann og Ægismenn voru verulega ósáttir. Zamorano lét sér fátt um finnast, fór aftur á punktinn og skoraði af öryggi.

Fjórum mínútum síðar skilaði góð sókn Selfyssinga marki. Sesar Örn Harðarson slapp innfyrir og kláraði færið laglega í fjærhornið. Selfyssingar héldu fengnum hlut eftir þetta en geta þakkað markverði sínum, Arnóri Elí Kjartanssyni, fyrir það. Hann átti risastóra vörslu á 75. mínútu, þegar Toma Ouchagelov skaut lúmsku skoti úr teignum og á 88. mínútu skaut Brynjólfur Þór Eyþórsson í þverslána á marki Selfoss. Þeir vínrauðu fögnuðu hins vegar 2-3 sigri þegar lokaflautan gall.

Árborg og Hamar úr leik
Árborg tók á móti Augnablik á Selfossvelli og kom gestunum í opna skjöldu í fyrri hálfleik. Sigurður Óli Guðjónsson kom Árborg yfir strax á 3. mínútu og á 27. mínútu tvöfaldaði Þormar Elvarsson forskotið með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Aroni Darra Auðunssyni innan teigs. Árborgarar féllu djúpt í kjölfarið og Augnablik náði að jafna með tveimur mörkum á síðasta korterinu í fyrri hálfleik. Gestirnir skoruðu svo sigurmarkið snemma í seinni hálfleik og þar við sat, 2-3.

Í Boganum á Akureyri mættust Magni frá Grenivík og Hamar. Heimamenn reyndust sterkari, skoruðu eitt mark í hvorum hálfleik án þess að Hamar næði að svara fyrir sig og sigruðu 2-0.

Fyrri greinSkjálfti upp á 3,3 í Mýrdalsjökli
Næsta grein107,5 milljónir króna til verkefna á Suðurlandi