Selfoss vann stigakeppni félaganna

Umf. Selfoss sigraði í heildarstigakeppni HSK þar sem gefin eru stig fyrir árangur í héraðsmótum árið 2010. Verðlaunin voru veitt á ársþingi HSK í morgun.

Selfoss hafði nokkra yfirburði með 245 stig, Hamar varð í 2. sæti með 177,5 stig og skákaði þar með Dímon sem varð í 3. sæti með 174 stig.

Fimleikadeild Umf. Selfoss fékk unglingabikar HSK fyrir fjölbreytt unglingastarf og Íþróttafélagið Dímon fékk foreldrastarfsbikarinn fyrir öflugt foreldrastarf.

Árni Einarsson, Umf. Selfoss, var valinn öðlingur ársins 2010. Árni er sjötugur og keppti á árum áður í frjálsum íþróttum. Á efri árum hefur hann hafið iðkun aftur og m.a. keppt á Norðurlandameistaramóti og Evrópumeistaramóti öldunga í frjálsum.