Selfoss vann stigakeppni félaganna

Ísold Assa Guðmundsdóttir (í miðið) sigraði í þremur greinum í flokki 13 ára stúlkna. Hér er hún á verðlaunapalli með Eydísi Örnu Birgisdóttur (silfur) og Þórhildi Lilju Hafsteinsdóttur (brons) í 60 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Umf. Selfoss vann öruggan sigur á aldursflokkamóti HSK í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem haldið var í íþróttahöllinni í Kaplakrika síðastliðinn sunnudag.

Lið Selfoss sigraði í stigakeppni félaganna með 450 stig en lið Garps/Heklu varð í 2. sæti með 255 stig og þar á eftir Hrunamenn með 108 stig.*

Selfyssingar unnu til nítján gullverðlauna á mótinu og þar af urðu Gunnar Erik Cevers og Ísold Assa Guðmundsdóttir þrefaldir héraðsmeistarar. Gunnar Erik sigraði í 60 m hlaupi, 600 m hlaupi og langstökki í flokki 11 ára pilta og Ísold Assa sigraði í 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi og hástökki 13 ára stúlkna.

Í piltaflokki 12 ára varð Vésteinn Loftsson, Umf. Hrunamanna, fjórfaldur meistari en hann sigraði í 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, 600 m hlaupi og langstökki.

Hjá stúlkunum varð Esja Sigríður Nönnudóttir, Garpi/Heklu, fimmfaldur meistari, en hún sigraði í 600 m hlaupi, 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, hástökki og langstökki 12 ára stúlkna.

Enginn sló þó við Veigari Þór Víðissyni, Garpi/Heklu, sem sigraði í öllum sínum greinum í flokki 14 ára pilta og varð sexfaldur héraðsmeistari; í 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, hástökki, langstökki, kúluvarpi og 600 m hlaupi.

* Stigabikar félaganna var ekki afhentur á mótinu þar sem heildarúrslit lágu ekki fyrir í lok móts vegna bilunar í mótaforriti. Stigaútreikningurinn í þessari frétt er útreikningur sunnlenska.is og verður leiðréttur ef þörf er á þegar endanleg úrslit liggja fyrir.

Þrefaldur héraðsmeistari í flokki 11 ára pilta, Gunnar Erik Cevers (í miðið) á verðlaunapalli með Ara Einarssyni (silfur) og Elvari Inga Stefánssyni (brons) í 600 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Vésteinn Loftsson (í miðið) sigraði í fjórum greinum í flokki 12 ára pilta. Hér er hann á verðlaunapalli með tvíburunum úr Laugdælum, þeim Loga og Friðriki Smárasonum en þessir þrír voru öflugir í hlaupagreinum mótsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Esja Sigríður Nönnudóttir (í miðið) sigraði í fjórum greinum í flokki 12 ára stúlkna. Hér er hún á verðlaunapalli með Örnu Daníelsdóttur (silfur) og Huldu Guðbjörgu Hannesdóttur (brons) í 600 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Veigar Þór Víðisson (í miðið) náði frábærum árangri og varð sexfaldur héraðsmeistari. Hann deildi verðlaunapallinum í flestum greinum með þeim Oliver Jan Tomczyk (t.v.) og Daníel Breka Elvarssyni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinLíkfundur á Sólheimasandi
Næsta greinFlúðaskóli fékk Menntaverðlaun Suðurlands fyrir stórkostlegt leiklistarstarf