Selfoss vann og nokkur HSK met sett

Þrjú héraðsmót í frjálsíþróttum fóru fram samhliða í Kaplakrika 15. janúar sl. Um var að ræða Aldursflokkamót HSK, Unglingamót HSK og Héraðsmót HSK.

Aldursflokkamót HSK
140 keppendur voru skráðir á Aldursflokkamót HSK en mótið er ætlað keppendum 11-14 ára. Keppendurnir komu frá níu félögum innan HSK en að auki voru þó nokkrir gestakeppendur frá FH. Stigakeppni félaganna fór þannig að Umf. Selfoss sigraði mótið með 270 stig. Í öðru sæti var Umf. Hrunamanna með 145 stig en í þriðja sæti var Íþrf. Garpur með 98 stig.

Eitt HSK met var sett á aldursflokkamótinu, Dagur Fannar Einarsson Umf. Selfoss bætti HSK metið í 800 metra hlaupi 15 ára. Hann hljóp á 2:21,14. Fannar Yngvi Rafnarsson átti gamla metið sem var 2;21,40 mín. Þá jafnaði Sindri Freyr Seim Sigurðsson Umf. Heklu metið í 60 metra hlaupi í 14 ára flokki þegar hann hljóp á 7,77 sek. Bjarki Ragnarson Bjarnarson á nú metið með Sindra.

Unglingamót HSK
Á unglingamótinu öttu kappi keppendur 15-19 ára. Þátttaka var ágæt en 40 keppendur voru skráðir á mótið en það er á pari við undanfarin ár. Umf. Selfoss sigraði stigakeppnina með 294 stigum, Umf. Þór var í öðru sæti með 113 stig og í þriðja sæti var Umf. Þjótandi með 68 stig.

Héraðsmót HSK
Það voru ekki margir þátttakendur frá HSK skráðir til leiks á Héraðsmótið að þessu sinni en stærsta ástæðan fyrir því er að Unglingamótið var haldið á sama tíma. Opið var fyrir gestaþátttöku á Héraðsmótinu og segja má að það hafi lyft þessu fámenna móti upp á annað plan. Stigakeppni félaganna fór þannig að Umf. Selfoss sigraði mótið með 77 stig. Í öðru sæti var Íþrf. Garpur með 28 stig og í þriðja sæti var Íþrf. Dímon með 18 stig.

Tvö met voru sett á héraðsmótinu. Guðrún Heiða Bjarnadóttir Umf. Selfoss bætti eigið HSK met um fjóra sentimetra í langstökk í 20-22 ára flokki þegar hún stökk 5,59 metra. Þá setti María Rósa Einarsdóttir úr Dímon met í 800 metra hlaupi í 40-44 ára flokki, en hún hljóp á 3:39,20 mín.

Fyrri greinMílan varð undir gegn KR
Næsta greinOpið hús í Tryggvaskála í dag