Selfoss vann í markaleik

Brenna Lovera skoraði tvö mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var boðið upp á markaveislu á gervigrasvellinum í Laugardalnum í kvöld þegar Selfoss heimsótti Þrótt í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu.

Selfyssingar komust yfir strax á 12. mínútu leiksins þegar boltinn barst út á Önnu Maríu Friðgeirsdóttur eftir hornspyrnu. Hún lét vaða að marki og skoraði. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Caity Heap úr hornspyrnu og Selfyssingar komnir í álitlega stöðu, 0-2. Þá kom magnaður kafli hjá Þrótti sem skoraði tvö mörk á þremur mínútum og staðan var 2-2 í hálfleik.

Fjörið var ekki minna á upphafsmínútum síðari hálfleiks því  Brenna Lovera skoraði tvívegis fyrir Selfyssinga á þriggja mínútna kafla. Á 49. mínútu hirti hún upp frákast í vítateignum eftir fyrirgjöf Hólmfríðar Magnúsdóttur og á 52. mínútu fékk hún góða sendingu frá Evu Núru Abrahamsdóttur og skoraði af öryggi.

Í stöðunni 2-4 voru Selfyssingar með góð tök á leiknum alveg fram á mínúturnar en Þróttarar þjörmuðu mikið að Selfyssingum í lokin. Þær áttu skalla í þverslá á 85. mínútu og í uppbótartímanum minnkuðu þær muninn í 3-4. Það olli titringi hjá Selfyssingum en þær héldu út og halda toppsætinu í deildinni.

Selfoss er í toppsæti deildarinnar með 12 stig en Þróttur er í 6. sæti með 3 stig. Næsti leikur Selfoss er gegn Fylki á heimavelli fimmtudaginn 27. maí.

Fyrri greinNú lágu Þórsarar í því
Næsta greinÖruggt hjá Hamri og Stokkseyri