Selfoss vann gull og brons á Reykjavíkurleikunum

Fimleikadeild Selfoss sendi tvö lið til keppni á Reykjavíkurleikana í hópfimleikum um síðustu helgi og unnu þau til gull- og bronsverðlauna.

Keppt var annars vegar í Teamgym í opnum flokki, þar sem allir kepptu við alla óháð aldri, og hins vegar var keppt aldurskipt í landsreglum.

Selfoss sendi unglingaliðið sitt til keppni í Teamgym, en liðið reynir að ná inn á Norðurlandamót juniora sem haldið verður í Svíþjóð 21. apríl nk.

Stelpurnar í Selfossliðinu áttu ágætis dag í keppninni og voru áberandi flottar á trampólíni og í dansi, en þær hlutu hæstu einkunn unglingaliða á mótinu á þessum tveimur áhöldum. Dýnan var ekki hrein hjá þeim og verður að vinna stíft í æfingum á dýnu fyrir unglingamótið sem haldið verður á Selfossi 11. febrúar næstkomandi.

Á unglingamótinu er einmitt úrtakan fyrir Norðurlandamótið og þurfa stúlkurnar að lenda í öðru af efstu tveimur sætunum til að ná inn á Norðurlandamótið. Liðið hafnaði í 3. sæti á RIG á eftir meistaraflokkum Gerplu og Stjörnunnar. Unglingalið Gerplu varð í 4. sæti og unglingalið Ármanns í 5. sæti.

Selfoss HL1, sem er 3. flokks lið Selfoss, keppti í landsreglum. Áttu þær góðan dag á dýnu og dansi, en ekki á trampólíni. Þær voru þó áberandi flottar og sigruðu mótið með glæsibrag.

Þetta mót er liður í undirbúningi þeirra fyrir unglingamótið, en þar keppast þær við að vera Íslandsmeistarar unglinga í 3. flokki sem er flokkur 15-18 ára. Mótið um helgina gaf góðar vísbendingar um komandi keppnistímabil hjá Selfossliðunum.