Selfoss vann Gróttu en Haukar hirtu titilinn

Sölvi Ólafsson var í ham í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann mjög sannfærandi sigur á Gróttu í Olísdeild karla í handbolta í kvöld en sá um leið á eftir deildarmeistaratitlinum í hendur Hauka.

Selfoss lagði Gróttu 29-20 á heimavelli í Iðu en Haukar náðu 27-27 jafntefli gegn ÍBV úti í Vestmannaeyjum og stigið dugði Haukum til þess að tryggja sér titilinn.

Munurinn mestur tíu mörk
Leikur Selfoss og Gróttu varð aldrei spennandi. Staðan var orðin 8-1 eftir 14. mínútur og Selfoss leiddi í leikhléi, 14-8. Munurinn varð mestur tíu mörk í seinni hálfleik, 24-14.

Elvar Örn Jónsson og Hergeir Grímsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk og Haukur Þrastarson skoraði 5/1. Atli Ævar Ingólfsson og Nökkvi Dan Elliðason skoruðu 3, Guðjón Baldur Ómarsson og Alexander Már Egan 2, Árni Steinn Steinþórsson 1 og Ari Sverrir Magnússon 1/1.

„Fínt að klára loksins leik sannfærandi“
Sölvi Ólafsson var besti leikmaður Selfoss í kvöld, varði 14/1 skot og var með 41% markvörslu. Pawel Kiepulski varði 3 skot og var með 40% markvörslu.

„Það var fínt að klára loks­ins leik sann­fær­andi. Við höf­um verið í basli með það í vet­ur, oft náð góðu for­skoti og misst það síðan niður. Við höf­um ekki átt marga svona leiki í vet­ur þannig að þetta er góð til­finn­ing. En það er samt alltaf skemmti­legra að vinna leiki með einu marki,“ sagði Sölvi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni er Selfoss í 2. sæti með 32 stig. Haukar hafa 34 stig á toppnum og Valur 31 stig í 3. sæti. Haukar og Valur mætast í lokaumferðinni en Selfoss mætir Stjörnunni, sem gæti sömuleiðis verið líklegur andstæðingur Selfoss í úrslitakeppninni.

Fyrri greinEinvígið gegn Fjölni hefst á laugardag
Næsta greinTveir í samfloti á 163 km/klst hraða