Selfoss vann grannaslaginn í bikarnum

Markaskorarinn Hrvoje Tokic sækir að marki Hamars en Friðrik Örn Emilsson er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrstudeildarlið Selfoss vann öruggan sigur á 4. deildarliði Hamars í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn fór fram á grasi grónum Grýluvelli í Hveragerði.

Selfyssingar voru með boltann meirihluta leiksins en Hamarsmenn vörðust vel og Jóhann Karl Ásgeirsson var traustur í markinu. Hann kom þó engum vörnum við á 19. mínútu þegar Hrvoje Tokic skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Gonzalo Zamorano.

Staðan var 0-1 í hálfleik og mörkin héldu áfram að láta á sér standa í seinni hálfleiknum. Selfoss rúllaði boltanum mikið sín á milli og Hamar ógnaði lítið. Það var ekki fyrr en sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma að gestunum tókst að skora aftur. Zamorano sendi þá boltann fyrir markið frá vinstri og Ísak Leó Guðmundsson kiksaði hann illilega í fjærhornið.

Lokatölur 0-2 og Selfyssingar eru komnir í 32-liða úrslitin, ásamt Ægi, en liðin úr Bestu deildinni koma inn í keppnina þegar dregið verður í 32-liða úrslit.

Fyrri greinNauðlenti paramotor við Selvog
Næsta greinEkki leikur fyrir hjartveika