Selfoss valtaði yfir úrvalsdeildarliðið

Katla María Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir fögnuðu vel eftir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta eftir stórsigur á KA/Þór í 8-liða úrslitum í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.

Lokatölur leiksins urðu 34-15 og það hlýtur að teljast fáheyrt að lið sem leikur í 1. deildinni valti á þennan hátt yfir úrvalsdeildarlið. Í deildarkeppninni er Selfoss á toppi 1. deildarinnar en KA/Þór á botni Olísdeildarinnar.

Selfoss hafði leikinn í hendi sér frá fyrstu mínútu, þær skoruðu fyrstu sex mörkin og KA/Þór skoraði ekki fyrr en níu mínútur voru liðnar af leiknum. Selfossvörnin var frábær og Cornelia Hermansson varði eins og berserkur framan af leiknum. Selfoss komst í 10-1 og staðan var 19-6 í hálfleik.

Eftir rúmar tíu mínútur í seinni hálfleik var staðan orðin 25-9 en aðeins dró saman með liðunum á lokakaflanum, þó að úrslitin væru löngu ráðin.

Katla markahæst með 15 mörk
Katla María Magnúsdóttir átti stórleik fyrir Selfoss, skoraði 15 mörk og næst henni kom Perla Ruth Albertsdóttir með 8 mörk. Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 3, Arna Kristín Einarsdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir 2 og þær Tinna Sigurrós Traustadóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Cornelia varði 18 skot í marki Selfoss og Ágústa Jóhannsdóttir 1.

Selfoss verður því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin, ásamt ÍR, Val eða Haukum og Gróttu eða Stjörnunni.

Selfyssingar fögnuðu sigrinum innilega í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Sannarlega þörf fyrir svona skiptimarkað“
Næsta greinStöldrum við og njótum líðandi stundar