Selfoss valtaði yfir ÍR

Selfyssingar unnu fádæma öruggan sigur á ÍR í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Breiðholtinu urðu 25-37.

Það er skemmst frá því að segja að Selfyssingar stjórnuðu leiknum allan tímann. Þeir komust í 1-5 á upphafsmínútunum og leiddu 6-12 um miðjan fyrri hálfleikinn.

Munurinn var átta mörk í leikhléi, 13-21, og Selfyssingar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleiknum. ÍR-ingar áttu aldrei möguleika gegn eldspræku Selfossliði.

Teitur Örn Einarsson var atkvæðamestur Selfyssinga með 10/3 mörk, Einar Sverrisson skoraði 9, Haukur Þrastarson 7, Árni Steinn Steinþórsson 4, Elvar Örn Jónsson 3 og þeir Sverrir Pálsson, Guðjón Baldur Ómarsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu allir 1 mark.

Sölvi Ólafsson varði 18 skot í marki Selfoss og var með 43% markvörslu.

Með sigrinum fóru Selfyssingar uppfyrir Valsmenn í 3. sætið með 24 stig. Valur á vissulega leik til góða, er í 4. sætinu með 23 stig.

Fyrri grein110 nautgripir á Eystri-Grund aflífaðir
Næsta greinSpenna í lokin í Þorlákshöfn