Selfoss úr leik þrátt fyrir frábæran sigur

Hulda Hrönn Bragadóttir skorar eitt af fimm mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd: Selfoss handbolti/Sigurður Ástgeirsson

Selfoss er úr leik í Evrópubikar kvenna í handbolta þrátt fyrir magnaðan sigur á gríska liðinu AEK Aþenu í seinni leik liðanna í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.

Lokatölur urðu 27-24 en AEK vann fyrri leikinn 32-26 og Grikkirnir fögnuðu því sigri í einvíginu, 56-53.

AEK skoraði fyrstu þrjú mörkin í leiknum í kvöld en þegar Selfoss hafði hrist úr sér hrollinn voru þær fljótar að minnka muninn í eitt mark. Staðan í hálfleik var 11-12.

Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik, Selfoss jafnaði tvisvar en Grikkirnir voru skrefinu á undan.

Síðustu tíu mínúturnar voru þær vínrauðu hins vegar magnaðar, þær spiluðu frábæra vörn og Grikkirnir vissu ekki hvort þær voru að koma eða fara, Selfoss skoraði fimm mörk í röð og breytti stöðunni úr 19-21 í 24-21 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir.

Tíminn vann ekki með Selfyssingum og Grikkirnir gátu andað nokkuð rólega, komandi með sex marka forskot inn í leikinn.

Hulda Hrönn Bragadóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu 5 mörk fyrir Selfoss, Mia Kristin Syverud 5/1 og Hulda Dís Þrastardóttir 5/3. Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir skoraði 3, Harpa Valey Gylfadóttir 2 og þær Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Sara Dröfn Richardsdóttir skoruðu 1 mark hvor. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 6 skot í marki Selfoss og Sara Xiao Reykdal 2.

Fyrri greinFyrsta undirstaðan steypt í Vaðölduveri
Næsta greinStórvirki Gísla Sverris um hornfirska sögu