Selfoss úr leik í Evrópubikarnum

Sölvi Ólafsson varði vel í seinni hálfleiknum en það dugði ekki til. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru úr leik í Evrópubikar karla í handbolta eftir sex marka tap gegn Jeruzalem Ormož á útivelli í Ormož í Slóveníu í dag. Lokatölur urðu 28-22 og Ormož vann einvígið samtals 59-53 eftir 31-31 jafntefli í fyrri leiknum á Selfossi.

Fyrri hálfleikur var arfaslakur hjá Selfyssingum í dag sem gekk afleitlega að verjast sóknum Slóvenanna. Ormož náði fjögurra marka forskoti strax í upphafi leiks en munurinn varð mestur átta mörk þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar, 16-8. Ekki batnaði staðan þegar Svartfellingarnir með flauturnar ákváðu að reka Guðmund Hólmar Helgason af velli með rautt og blátt spjald á 21. mínútu fyrir litlar sakir að því er virtist. Á lokamínútum fyrri hálfleiks náðu Selfyssingar þó að rétta sinn hlut með því að skora þrjú mörk í röð og staðan var 18-13 í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði að minnka muninn strax í tvö mörk, 19-17. Slóvenarnir höfðu frumkvæðið eftir það og leiddu með 3-4 mörkum. Selfoss fékk mörg tækifæri til þess að minnka muninn frekar en gerðu of mörg mistök auk þess sem Alen Skledar, markvörður Ormož, stóð vaktina vel. Hann var maður leiksins með 21 skot varið og 49% markvörslu.

Sölvi Ólafsson stóð sig vel í marki Selfoss í seinni hálfleiknum og hélt Selfyssingum inni í leiknum. Góð frammistaða Sölva dugði þó ekki til því Selfyssingar höfðu ekki nein ráð á lokakaflanum gegn sterkri vörn Slóvenanna og heimamenn juku forskotið á síðustu sjö mínútunum en Selfyssingum tókst aðeins að skora eitt mark á þeim kafla.

Richard Sæþór Sigurðsson og Árni Steinn Steinþórsson voru markahæstir Selfyssinga, báðir með 5 mörk. Hergeir Grímsson skoraði 3 og þeir Ísak Gústafsson, Einar Sverrisson, Tryggvi Þórisson og Alexander Egan skoruðu allir 2 mörk og Karolis Stropus skoraði 1.

Sölvi Ólafsson kom inná og varði 9/1 skot í marki Selfoss og var með 35% markvörslu, en Vilius Rasimas, tókst ekki að verja neitt skot í fyrri hálfleiknum.

Fyrri greinEvrópuleikur Selfyssinga í beinni útsendingu
Næsta greinGóður sigur Selfyssinga