Selfoss úr leik í bikarnum

Bikardraumur kvennaliðs Selfoss er úti eftir að liðið tapaði 4-0 fyrir Pepsi-deildarliði FH á útivelli í dag.

Liðin mættust í Kaplakrika í 16-liða úrslitum VISA-bikarsins og það voru heimamenn sem byrjuðu betur. FH-ingar komust yfir á 6. mínútu og bættu svo við öðru marki á 30. mínútu en staðan var 2-0 í hálfleik. FH var sterkari aðilinn allan leikinn og ekki bætti úr skák að Thelma Sif Kristjánsdóttir fékk tvö gul spjöld á skömmum tíma, annað þeirra fyrir litlar sakir.

Í síðari hálfleik skoraði FH tvö mörk til viðbótar á þess að Selfoss næði að svara fyrir sig. Guðmunda Brynja Óladóttir kom inná hjá Selfoss í hálfleik og hún og Katrín Ýr Friðgeirsdóttir náðu nokkrum sinnum að skapa usla í vörn FH-inga.