Selfoss er úr leik í bikarkeppni kvenna í handbolta eftir tap gegn KA/Þór í 16-liða úrslitunum á Akureyri í kvöld.
Þeim vínrauðu gekk illa að skora í upphafi leiks og komust ekki á blað fyrr en eftir tæpar sex mínútur. KA/Þór var komið í sex marka forystu um miðjan fyrri hálfleikinn, 9-3, en staðan var 16-11 í hálfleik.
Leikurinn varð aldrei spennandi í seinni hálfleiknum, KA/Þór náði mest ellefu marka forskoti en Selfoss klóraði í bakkann í lokin og leiknum lauk með öruggum sigri Akureyringa, 32-26.
Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 2 skot í marki Selfoss og var með 11% markvörslu og Sara Xiao Reykdal varði 1 skot og var með 6% markvörslu.
Mia Kristin Syverud var markahæst Selfyssinga með 7/4 mörk, Hulda Hrönn Bragadóttir skoraði 6, Sara Dröfn Richardsdóttir 5, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 3, Eva Lind Tyrfingsdóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir 2 og Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 1 mark.

