Selfyssingar eru úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir tap á heimavelli gegn Þór Akureyri í 16-liða úrslitunum í kvöld. Lokatölur í blíðunni á Selfossvelli urðu 1-4.
Þórsarar gerðu nánast út um leikinn í fyrri hálfleik en þeir komust yfir strax á 2. mínútu og tvöfölduðu forskot sitt svo á 15. mínútu. Selfyssingar áttu ágætis spretti inn á milli en tókst ekki að gera sér mat úr færunum. Þórsarar komust svo í 0-3 á 38. mínútu en fimm mínútum síðar henti Aron Lucas Vokes líflínu til Selfyssinga með góðu marki og staðan var 1-3 í hálfleik.
Þórsarar komust svo í 1-4 á 54. mínútu og eftir það róaðist leikurinn nokkuð. Bæði lið fengu hálffæri en annars var lítið í gangi. Selfyssingar áttu að fá vítaspyrnu á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki og Þórsarar unnu öruggan sigur.