Selfoss úr leik í bikarnum

Selfoss er úr leik í Símabikar karla í handbolta eftir 25-34 tap gegn ÍR í undanúrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag.

ÍR skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Selfoss jafnaði 3-3. Eftir það tóku ÍR-ingar frumkvæðið en Selfoss minnkaði muninn í tvö mörk, 12-14, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. ÍR skoraði þá þrjú mörk í röð á skammri stund og breyttu stöðunni í 12-17 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Selfyssingar áttu að gera betur í fyrri hálfleik þar sem þeir nýttu illa tímann þegar þeir voru manni fleiri og undir lok fyrri hálfleiks voru menn of bráðir á sér í sókninni og tóku ótímabær skot sem gáfu ÍR hraðaupphlaup í kjölfarið.

ÍR-ingar voru mun sterkari í seinni hálfleik og eftir tíu mínútur var munurinn orðinn tíu mörk, 15-25. Þannig hélst munurinn lengst af og varð mestur 11 mörk en Selfoss minnkaði muninn aftur í sjö mörk, 21-28. Lokatölur voru 25-34.

Selfyssingar voru svekktur í leikslok enda níu marka tap ekki það sem lagt var upp með en liðsmenn geta verið stoltir af því að hafa komist í undanúrslitin og stuðningsmenn þeirra, sem fjölmenntu í Höllina og studdu sína menn dyggilega, voru ánægðir með sína menn.

Einar Sverrisson og Hörður Másson skoruðu báðir 6 mörk en þegar leið á leikinn var Hörður sá eini sem skaut óhikað utan af velli. Sverrir Pálsson kom inná undir lokin og skoraði 2 mörk en Hörður Bjarnarson og Matthías Örn Halldórsson skoruðu einnig 2 mörk hvor. Magnús Már Magnússon, Gunnar Ingi Jónsson, Örn Þrastarson, Einar Pétur Pétursson, Andri Már Sveinsson, Sigurður Már Guðmundsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir 1 mark.

Helgi Hlynsson varði 13/1 skot en Hermann Guðmundsson náði ekki að loka rammanum þegar hann kom inná á lokamínútunum.

Fyrri greinMikil stemmning í Höllinni
Næsta grein„Stuðningsmennirnir voru frábærir“