Selfoss úr leik í bikarnum

Gonzalo Zamorano. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss er úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 4-2 tap í bráðfjörugum leik í 32-liða úrslitum gegn 1. deildarliði Fjölnis í Egilshöllinni í kvöld.

Valdimar Jóhannsson kom Selfyssingum yfir strax á 6. mínútu eftir snarpa sókn og fyrirgjöf frá hægri frá Aroni Fannari Birgissyni. Fjölnismenn jöfnuðu metin með glæsimarki á 34. mínútu þegar Selfoss svaf á verðinum á fjærstöng eftir þversendingu yfir völlinn og staðan var 1-1 í hálfleik.

Heimamenn mættu betur gíraðir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu tvívegis eftir fyrirgjafir út sitthvorri áttinni áður en Gonzalo Zamorano minnkaði muninn í 3-2 á 81. mínútu með lúmskri hælspyrnu úr markteignum eftir frábæran undirbúning Alfredo Ivan Arguello.

Selfyssingar reyndu að finna jöfnunarmarkið en það voru Fjölnismenn sem áttu síðasta orðið og skoruðu fjórða mark sitt einni mínútu fyrir leikslok þegar sóknarmaður þeirra spólaði sig í gegnum Selfossvörnina.

Selfyssingar eru því úr leik í keppninni en Fjölnir er fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum.

Fyrri greinCarlos tekur við sem þjálfari Selfoss
Næsta greinTónlistarnámskeið fyrir yngstu krílin á Suðurlandi