Selfoss úr leik í bikarnum

Henriette Østergård var frábær í marki Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss er úr leik í bikarkeppninni í handbolta eftir 21-29 tap gegn úrvalsdeildarliði KA/Þórs á Selfossi í kvöld.

KA/Þór tók frumkvæðið í leiknum strax í upphafi og staðan var 1-6 eftir tæplega tíu mínútna leik. Þá hresstust Selfyssingar nokkuð og náðu að minnka muninn í 6-9 en staðan var 9-13 í leikhléi.

Gestirnir náðu sex marka forystu í upphafi seinni hálfleiks og þurftu ekki að hafa teljandi áhyggjur en Selfyssingar voru þó aldrei langt undan og munurinn varð minnstur fjögur mörk. Á lokakaflanum jókst munurinn aftur og að lokum skildu átta mörk liðin að.

Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 9/3 mörk, Agnes Sigurðardóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu báðar 3 mörk, Rakel Guðjónsdóttir 2 og þær Tinna Traustadóttir, Elín Krista Sigurðardóttir, Sigríður Lilja Sigurðardóttir og Þuríður Ósk Ingimarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Henriette Østergård átti frábæran leik í marki Selfoss og varði 21 skot en hún var með 47% markvörslu í leiknum.

Fyrri greinEngin útbreiðsla á Gumboro veiki í kjúklingaeldi
Næsta greinÓðinshaninn flýgur ævintýralegar vegalengdir