Selfoss úr leik í bikarnum

Selfyssingar eru úr leik í Eimskipsbikar karla í handbolta eftir 25-29 tap á heimavelli gegn Valsmönnum í kvöld.

Selfyssingar byrjuðu mun betur í leiknum og komust í 5-1. Valsmenn vöknuðu ekki fyrr en tuttugu mínútur voru búnar af leiknum en þá röðuðu þeir inn mörkunum og staðan í hálfleik var 14-12, Selfoss í vil.

Valsmenn komust yfir snemma í seinni hálfleik og leiddu til loka. Selfyssingar fylgdu þeim eftir sem skugginn en um leið og Valur komst yfir virtust taugar heimamanna bresta. Þeir áttu líka erfitt uppdráttar gegn hrikalega lélegu dómarapari sem gerði vonir Selfoss um sigur að engu.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 10/2 mörk. Guðni Ingvarsson stóð sig vel í horninu og skoraði 4 mörk. Atli Einarsson var með 3, Guðjón Drengsson, Gunnar Jónsson, Helgi Héðinsson og Matthías Halldórsson skoruðu allir 2 mörk.

Sebastian Alexandersson átti stórleik í markinu í fyrri hálfleik en fór meiddur útaf á fyrstu sekúndum síðari hálfleiks. Basti varði 16/1 skot en Birkir Bragason varði fjögur.

Hjá Valsmönnum var Selfyssingurinn Valdimar Fannar Þórsson allt í öllu en hann skoraði 14/5 mörk.

Fyrri greinNemendum boðið upp á hafragraut
Næsta greinHamar tapaði í Vesturbænum