Selfoss upp í 3. sætið

Kvennalið Selfoss hoppaði upp í 3. sæti Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld með því að leggja ÍA 0-1 á útivelli.

Leikurinn var fjörugur framan af og bæði lið áttu ágæta spretti án þess að ná að skora. Bestu tilraun Selfoss átti Blake Stockton á 28. mínútu en markvörður ÍA varði vel frá henni. 0-0 í hálfleik.

Eva Lind Elíasdóttir átti ágætar marktilraunir í upphafi síðari hálfleiks en á 54. mínútu kom eina mark leiksins. Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði það af vítapunktinum, eftir að boltinn hafði farið í hönd einnar Skagakonunnar innan vítateigs.

Selfyssingum dugði þetta eina mark og sigldu þær sigrinum nokkuð örugglega til hafnar. Selfoss hefur nú 23 stig í 3. sæti deildarinnar og mætir næst liðinu í 2. sæti, Breiðabliki, á heimavelli næstkomandi þriðjudag.

Fyrri greinMöndluorkubitar
Næsta greinMargir kærðir fyrir hraðakstur