Selfoss undir í einvíginu

Selfoss og Fjölnir mættust í kvöld í Dalhúsum í fyrsta leik liðanna í umspili um sæti í efstu deild karla í handbolta. Fjölnir sigraði 33-30 eftir jafnan leik.

Leikurinn var jafn, hraður og spennandi en Fjölnismenn voru sterkari á lokakaflanum. Staðan í leikhléi var 16-16.

Þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður var staðan 23-23 en Fjölnir náði fjögurra marka forystu á stuttum tíma í kjölfarið og þegar rúmar fimm mínútur voru eftir var munurinn fimm mörk, 30-25.

Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk á lokamínútunum, 30-28, en Fjölnismenn geta þakkað markverði sínum fyrir að þeir vínrauðu komust ekki nær.

Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk og þeir Elvar Örn Jónsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu sex mörk hvor.

Næsti leikur liðanna er á Selfossi á þriðjudagskvöld. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer upp um deild.