Selfoss undir í baráttunni í Breiðholti

Mia Kristin Syverud var markahæst Selfyssinga með 9 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lánleysi Selfyssinga heldur áfram í úrvalsdeild kvenna í handbolta. Selfoss heimsótti ÍR í Breiðholtið í dag þar sem heimaliðið vann öruggan sigur, 34-29.

Leikurinn var jafn fyrstu tuttugu mínúturnar en þá skoraði ÍR fjögur mörk í röð og náði fjögurra marka forskoti, 15-11. Selfoss svaraði með góðum kafla og staðan var 16-16 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfleiknum en á síðustu tíu mínútunum fór sóknarleikur Selfyssinga að hökta. ÍR skoraði aftur fjögur mörk í röð og breytti stöðunni úr 27-27 í 31-27 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Selfoss fann ekki taktinn í lokin og ÍR vann sanngjarnan sigur.

Selfoss er í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með 2 stig en ÍR er í 3. sæti með 8 stig.

Mia Kristin Syverud var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Sara Dröfn Richardsdóttir skoraði 5, Hulda Hrönn Bragadóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir og Arna Kristín Einarsdóttir 3, Inga Sól Björnsdóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir 2 og Adela Jóhannsdóttir skoraði 1. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 8 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinLést af völdum voðaskots
Næsta greinSelfyssingar á toppnum