Selfoss tvöfaldur bikarmeistari

Selfyssingar tryggðu sér á sunnudag bikarmeistaratitla í 4. flokki karla og kvenna í handbolta en þetta er í fyrsta sinn sem handboltalið frá Selfossi vinna bikarkeppni.

Strákarnir léku til úrslita gegn FH og skoruðu Selfyssingar tvö fyrstu mörk leiksins. FH hafði eftir það undirtökin í fyrri hálfleik og leiddi í leikhléinu, 10-11. Í síðari hálfleik lék Selfossliðið frábærlega og breytti stöðunni úr 15-15 í 24-17 sér í vil. Eftir það var aldrei spurning hvort lið myndi vinna og lokatölur urður 26-22 sigur Selfoss.

Janus Daði Smárason var valinn maður leiksins en hann átti stórleik og skoraði 10 mörk.

Stelpurnar léku strax á eftir strákunum gegn ÍBV og var Selfoss sterkara liðið allan tímann. Selfoss var yfir allan leikinn og munurinn á bilinu tvö til fimm mörk allan fyrri hálfleikinn. Selfoss leiddi 13-17 í hálfleik. Í síðari hálfleik náðu Selfoss stúlkur að slíta sig snemma frá ÍBV og unnu að lokum öruggan 33-22 sigur sem hefði hægilega getað verið stærri.

Maður leiksins var valin Hanna Þrastardóttir en hún var með 11 mörk og átti mjög góðan dag.

Bæði lið eiga hrós skilið fyrir sína frammistöðu. Strákarnir léku gegn firnasterku liði FH og héldu haus allan leikinn. Þeir léku frábæra vörn í síðari hálfleik í bland við klókan sóknarleik sem gerði gæfumuninn.

Stelpurnar voru smástund að losa sig frá ÍBV liðinu en um leið og það gerðist var aldrei spurning hvernig leikurinn endaði. Í síðari hálfleik léku þær við hvern sinn fingur og sigur Selfoss sannfærandi.