Selfoss tryggði sér sæti í undanúrslitum

Selfoss vann frábæran sigur á Gróttu í kvöld og tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik. Lokatölur á Seltjarnarnesi urðu 20-21.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 12-12. Selfoss náði undirtökunum í upphafi seinni hálfleiks og fékk nokkur tækifæri til þess að hrista Gróttu af sér, en Gróttukonur komust alltaf aftur inn í leikinn.

Lokamínútan var æsispennandi en Grótta fékk vítakast þegar 30 sekúndur voru eftir í stöðunni 20-21. Skotið fór framhjá og Selfyssingar náðu að hanga á sigrinum þrátt fyrir að hafa tapað boltanum aftur þegar nokkrar sekúndur voru eftir.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var lang markahæst í liði Selfoss með 11 mörk. Dijana Radojevic skoraði 3, Kristrún Steinþórsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Perla Ruth Albertsdóttir, Adina Ghidoarca og Carmen Palamariu skoruðu allar 1 mark.

Selfoss er fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum sem fara fram í Laugardalshöllinni 23. febrúar. Hin liðin sem eigast við í 8-liða úrslitunum eru Stjarnan-ÍBV, Fylkir-Fram og Afturelding-Haukar.

Fyrri greinVarað við brimi í Reynisfjöru
Næsta greinFundi með Loga frestað