Selfoss tók Fylki í bóndabeygju

Selfyssingar áttu ekki í neinum vandræðum með að leggja Fylki að velli í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Yfirburðir Selfoss voru fáheyrðir í fyrri hálfleik en lokatölur voru 36-20.

Selfyssingar tóku Fylkismenn í bóndabeygju strax í upphafi leiks og héldu þeim þannig nánast allan tímann. Eftir þrettán mínútna leik var staðan 8-1 en vörn Selfoss var á tánum gegn Fylkismönnum sem spiluðu göngubolta og að baki vörninni stóð Sverrir Andrésson og varði hvert skotið af fætur öðru. Staðan í hálfleik var 19-7 og þar af höfðu tæp 30% Fylkismarkanna komið úr vítaköstum.

Leikurinn var jafnari í síðari hálfleik en þegar leið á leikinn juku Selfyssingar forskot sitt enn frekar og Fylkir átti engin svör.

Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hörður Másson skoraði 5, Einar Sverrisson og Sverrir Pálsson skoruðu báðir 5/1, Jóhannes Snær Erlingsson og Atli Hjörvar Einarsson 4, Magnús Már Magnússon og Andri Hrafn Hallsson 3 og þeir Ómar Ingi Magnússon og Árni Felix Gíslason skoruðu báðir 1 mark.

Sverrir Andrésson varði 15 skot og var með 46,8% markvörslu og Bogi Pétur Thorarensen varði 3 skot og var með 50% markvörslu.

Selfoss er í 3. sæti 1. deildarinnar með 17 stig eftir 11 leiki.