Selfoss tapaði stórt

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar steinlágu gegn Aftureldingu í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, þegar liðin mættust í Mosfellsbænum.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku heimamenn öll völd og náðu fimm marka forskoti, 12-7, en staðan var 19-10 í hálfleik.

Afturelding náði tíu marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks og munurinn jókst jafnt og þétt í kjölfarið, án þess að Selfyssingar næðu að svara fyrir sig.

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 4, Gunnar Kári Bragason, Álvaro Mallols og Sæþór Atlason 2 og þeir Hannes Höskuldsson, Richard Sæþór Sigurðsson, Jason Dagur Þórisson og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 6 skot í marki Selfoss og var með 25% markvörslu og Vilius Rasimas varði 5 skot og var með 21% markvörslu.

Selfyssingar eru enn án stiga í deildinni en þetta var fyrsti sigur Aftureldingar, sem lyfti sér upp í 8. sætið með sigrinum.

Fyrri greinEgill ráðinn framkvæmdastjóri LÍS
Næsta greinKFR tapaði í framlengingu