Selfoss tapaði stórt gegn Haukum

Hér „heilsast“ leikmenn fyrir leik. Markverðir Selfoss vörðu báðir vel í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu stórt þegar þeir fengu Hauka í heimsókn í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Hleðsluhöllinni urðu 25-35.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en þá tóku Haukar leikinn yfir og voru miklu betri það sem eftir lifði leiks. Þeir náðu mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 8-15.

Seinni hálfleikurinn var formsatriði fyrir Haukana að klára, þeir náðu strax tíu marka forskoti en mestur varð munurinn þrettán mörk, 14-27, um miðjan seinni hálfleik.

Selfyssingar hafa glímt við mikil meiðsli í vetur og ekki batnaði staðan í kvöld því Magnús Öder Einarsson og Atli Ævar Ingólfsson fóru af velli snemma leiks í kvöld, Magnús illa meiddur á hönd og Atli Ævar með heilahristing. Haukur Þrastarson beitti sér ekki af fullum krafti í fyrri hálfleik og spilaði lítið í seinni hálfleik en hann er meiddur framan á læri.

Ungu mennirnir markahæstir
Daníel Karl Gunnarsson og Tryggvi Þórisson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk, Haukur Þrastarson skoraði 4/1, Einar Sverrisson 4/2, Guðni Ingvarsson og Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Hergeir Grímsson, Alexander Egan og Arnór Logi Hákonarson skoruðu allir 1 mark.

Alexander Hrafnkelsson og Einar Baldvin Baldvinsson vörðu báðir 8/1 skot í marki Selfoss. Alexander var með 27% markvörslu og Einar Baldvin 33%.

Selfoss hefur áfram 25 stig í 5. sæti deildarinnar en Haukar eru í 4. sæti með 27 stig.

Fyrri greinSelfosskirkja býður upp á fermingardag í ágúst
Næsta grein33 í sóttkví á Suðurlandi – Engin staðfest smit