Selfoss tapaði nýliðaslagnum

Kenan Turudija átti skalla í slá en nær komust Selfyssingar ekki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu 0-1 fyrir Kórdrengjum í 1. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld í jöfnum leik.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og tókst einu sinni að koma boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Staðan var 0-0 í hálfleik og bæði lið höfðu átt fínar sóknir áður en Kórdrengir skoruðu sigurmarkið á 76. mínútu. Selfoss reyndi allt hvað af tók að jafna undir lokin en niðurstaðan varð hrikalega svekkjandi tap gegn liðinu í 3. sæti deildarinnar.

Selfoss og Kórdrengir eru nýliðar í 1. deildinni í ár og er hlutskipti þeirra nokkuð ólíkt. Á meðan Kórdrengir eru í baráttu um að komast upp um deild sveima Selfyssingar fyrir ofan fallsvæðið í 10. sæti með 9 stig en þar fyrir neðan er Þróttur með 7 stig. Munurinn er sex stig upp í Þór Akureyri sem er í 9. sætinu.

Fyrri greinHrafnhildur segir frá lífi og starfi Nínu
Næsta greinStór stig fyrir Ægi