Selfoss tapaði í spennutrylli

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu naumlega gegn Haukum í 2. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld, 27-26 á Ásvöllum.

Það var jafnræði með liðunum framan af leiknum en síðan áttu Selfyssingar virkilega slæman kafla og Haukar náðu mest sjö marka forystu. Staðan í hálfleik var 19-15.

Selfyssingar náðu að koma til baka í seinni hálfleiknum og jöfnuðu 24-24. Lokakaflinn var æsispennandi en Haukar komust í 27-25 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Selfoss minnkaði muninn í eitt mark og fékk svo þrjár tilraunir á lokamínútunni til þess að jafna metin, en Stefán Huldar Stefánsson, markvörður Hauka fór á kostum á lokamínútunni og varð allt sem á ramman kom.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10/2 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5 og sendi 6 stoðsendingar, Ísak Gústafsson skoraði 4 mörk, Richard Sæþór Sigurðsson 3/1, Guðjón Baldur Ómarsson 3 og Elvar Elí Hallgrímsson 1. Í vörninni bar Sverrir Pálsson höfuð og herðar yfir aðra leikmenn með 8 lögleg stopp og 2 blokkeruð skot. Alexander Hrafnkelsson átti góða innkomu í mark Selfoss og varði 9 skot, var með 53% markvörslu, en Vilius Rasimas varði 5 skot og var með 21% markvörslu.

Fyrri greinBjarg vill byggja á Hvolsvelli
Næsta greinSunnlensku liðin fá útileiki