Selfoss tapaði í lokaumferðinni

Selfoss fékk Stjörnuna í heimsókn í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Gestirnir voru sterkari í síðari hálfleik og tryggðu sér 1-4 sigur.

Fyrri hálfleikur var jafn en Selfyssingar voru ákveðnari í sínum aðgerðum og komust yfir á 33. mínútu. Þá var brotið á Valorie O’Brien fyrir utan vítateig Stjörnunnar, Katrín Ýr Friðgeirsdóttir tók aukaspyrnu inn á teiginn þar sem Thelma Sif Kristjánsdóttir stangaði boltann í netið á fjærstöng. Thelma fór síðan meidd af velli fimm mínútum síðar eftir samstuð.

Selfoss var nær því að bæta við mörkum í fyrri hálfleik og besta færið fékk Eva Lind Elíasdóttir sem slapp ein innfyrir og vippaði boltanum yfir markvörð Stjörnunnar en hitti ekki á ramman. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Selfossliðið mætti ekki nógu vel stemmt til leiks í seinni hálfleik og eftir að Stjarnan jafnaði á 54. mínútu var ljóst hvernig leikurinn myndi þróast. Inga Birna Friðjónsdóttir skoraði fyrsta mark Stjörnunnar en Harpa Þorsteinsdóttir kom þeim í 1-2 á 70. mínútu eftir að vörn Selfoss hafði galopnast. Helga Franklínsdóttir kom Stjörnunni í 1-3 á 82. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Harpa Þorsteinsdóttir glæsilegt mark þegar hún sólaði hvern varnarmanninn af fætur öðrum og skoraði.

Þrátt fyrir tap í leiknum voru Selfosskonur upplitsdjarfar í leikslok enda góðu knattspyrnusumri lokið þar sem liðið náði að halda sæti sínu í Pepsi-deildinni.

Fyrri greinVörubíll valt við Stóru-Laxá
Næsta greinÆgir í toppmálum eftir fyrri leikinn