Selfoss tapaði í hörkuleik

Kvennalið Selfoss tók á móti Haukum í Olís-deildinni í handbolta í Vallaskóla í dag. Eftir hörkuleik höfðu Haukar betur, 29-33.

Haukar byrjuðu betur í leiknum og komust í 1-4 á upphafsmínútunum. Selfoss jafnaði 5-5 þegar níu mínútur voru liðnar og komust í kjölfarið yfir í fyrsta skipti, 6-5. Eftir það var jafnt á öllum tölum þar til Selfoss náði tveggja marka forskoti, 11-9, en staðan var 15-14 í hálfleik.

Þær vínrauðu voru alls ekki með á nótunum í upphafi síðari hálfleiks en Haukar náði 2-6 áhlaupi á fyrstu sex mínútum seinni hálfleiks og þá var staðan orðin 17-20. Haukar leiddu eftir það en Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk, 19-21 áður en við tók annar slakur kafli þar sem upplausnarástand ríkti í vörn og sókn hjá Selfossi. Haukar gengu á lagið og náðu fimm marka forskoti, 22-27, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Sá munur var of mikill fyrir Selfyssinga sem náðu þó að klóra lauslega í bakkann á lokamínútunum.

Kristrún Steinþórsdóttir var best í liði Selfoss í dag og markahæst með 8 mörk ásamt Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur sem skoraði 8/3 mörk. Adina Ghidoarca skoraði 4 mörk, sem og Steinunn Hansdóttir sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir Selfoss í dag og komst vel frá sínu. Carmen Palamariu skoraði 3 mörk og Perla Ruth Albertsdóttir 2.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 5 skot í marki Selfoss og Áslaug Ýr Bragadóttir 3.

Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 10 stig.

Fyrri greinFærri kynferðisbrot til rannsóknar
Næsta greinSkeiða- og Gnúpverjahreppur fékk flest atkvæði