Selfoss tapaði í Garðabæ

Eftir jafnan fyrri hálfleik tapaði kvennalið Selfoss með níu marka mun þegar liðið heimsótti Stjörnuna í Olís-deildinni í handbolta í dag. Lokatölur urðu 29-20.

Selfoss hafði forystuna framan af fyrri hálfleik og munurinn varð mestur þrjú mörk, 5-8, þegar sautján mínútur voru liðnar af leiknum. Selfoss spilaði fína vörn framan af leik og Katrín Ósk Magnúsdóttir var að verja vel. Stjarnan náði hins vegar að komast yfir fyrir leikhlé en Selfoss jafnaði 11-11 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan 13-13 en í kjölfarið náði Stjarnan fimm marka forskoti, 20-15, um miðjan síðari hálfleik. Selfoss náði ekki að ógna forskoti Stjörnunnar eftir þetta og að lokum sigruðu heimakonur 29-20.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Thelma Sif Kristjánsdóttir skoraði 4, Þuríður Guðjónsdóttir, Carmen Palamariu og Margrét Katrín Jónsdóttir skoruðu allar 2 mörk og þær Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Selfoss er í 6. sæti Olís-deildarinnar með sjö stig.

Fyrri grein1996 árgangurinn fjölmennastur
Næsta grein„Metnaðarleysi í byggðamálum er sláandi“