Selfoss tapaði gegn toppliðinu

Selfoss tapaði 19-23 í hörkuleik þegar topplið Olís-deildar kvenna í handbolta, Fram, kom í heimsókn í íþróttahús Vallaskóla í dag.

Selfyssingar velgdu toppliðinu undir uggum í fyrri hálfleik og staðan var 9-9 í leikhléi. Í seinni hálfleik voru gestirnir hins vegar mun ákveðnari og sigruðu að lokum með fjórum mörkum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7/4 mörk, Elena Birgisdóttir skoraði 3, Kristrún Steinþórsdóttir, Thelma Sif Kristjánsdóttir og Harpa Brynjarsdóttir skoruðu allar 2 mörk og þær Tinna Soffía Traustadóttir og Carmen Palamariu skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 10 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 9 stig og mætir næst FH á útivelli næstkomandi föstudag.

Fyrri greinKrefjast betri vetrarþjónustu frá Vegagerðinni
Næsta greinJötunn Vélar með 51,4% markaðshlutdeild