Selfoss tapaði baráttunni í bleytunni

Selfoss tapaði 1-2 þegar Þór/KA kom í heimsókn á Selfossvöll í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Liðin eru að berjast á svipuðum slóðum um miðja deild.

Þór/KA sótti meira í fyrri hálfleik með strekkingsvind og slagveðurs rigningu í bakið. Gestirnir áttu nokkur hálffæri snemma í leiknum en Selfyssingar beittu skyndisóknum án árangurs og uppspil liðsins gekk gjarnan illa. Eva Lind Elíasdóttir slapp þó inn í vítateig á 5. mínútu þar sem Victoria Alonzo varði vel frá henni.

Á 16. mínútu komust gestirnir yfir þegar dómari leiksins gaf þeim vítaspyrnu. Boltinn hrökk upp í höndina á Valorie O’Brien innan teigs – bolti í hönd – en dómarinn flautaði umsvifalaust vítaspyrnu sem Mateja Zver skoraði örugglega úr. Eftir markið sóttu gestirnir meira án þess þó að fá færi en Selfyssingar ógnuðu lítið. Hrafnhildur Hauksdóttir átti skot utan teigs á 24. mínútu en boltinn fór yfir.

Þór/KA komst svo í 0-2 á 34. mínútu með sjálfsmarki Selfoss þegar fyrirgjöf hrökk af fæti Valorie og í netið. Gestirnir voru svo nálægt því að bæta þriðja markinu við þegar Kayla Grimsley lét vaða að marki utan teigs á 39. mínútu en boltinn fór í þverslána. Síðasta færi fyrri hálfleiks var Selfyssinga þegar aukaspyrna Ernu Guðjónsdóttur fór rétt framhjá marki Þórs/KA. 0-2 í hálfleik.

Erna var aftur á ferðinni strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks þegar hún slapp óvænt innfyrir en Alonzo varði meistaralega frá henni af stuttu færi. Síðari hálfleikur var lengst af tíðindalaus og einkenndist af miðjumoði á blautum vellinum. Gestirnir voru meira með boltann en varnarmenn Selfoss sáu til þess að færin voru engin.

Á 80. mínútu átti Katrín Ýr Friðgeirsdóttir sendingu fram völlinn sem varnarmenn Þórs/KA misreiknuðu í bleytunni. Anna Garðarsdóttir tók sénsinn og hljóp innfyrir þar sem hún var allt í einu á auðum sjó og skoraði af öryggi, 1-2.

Markið hleypti miklu lífi í Selfyssinga en þeir voru þó slegnir út af laginu fjórum mínútum síðar. Kayla Grimsley lét sig þá detta í vítateignum og aðstoðardómarinn féll í gildruna og flaggaði víti. En eins og oft vill verða nýtast vítaspyrnur illa ef engin innistæða er fyrir þeim og Michele Dalton varði glæsilega vítaspyrnu frá Zver.

Þegar leið að lokum sóttu Selfyssingar stíft og pressuðu gestina um allan völl en kappið bar þar fegurðina ofurliði og með meiri yfirvegun hefðu þær vínrauðu jafnvel getað jafnað leikinn.

Svo fór þó ekki og með sigrinum situr Þór/KA nú í 5. sæti deildarinnar með 23 stig en Selfoss er í 6. sæti með 20 stig.

Fyrri greinKristinn sigraði á nýju HSK meti
Næsta greinFljúgandi furðuhlutur sveimaði yfir Hellu