Selfoss tapaði fyrir toppliðinu

Selfyssingar töpuðu 3-0 þegar þeir heimsóttu topplið Fjölnis í 1. deild karla í knattspyrnu í dag.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, sóknarþungi Fjölnis var meiri en Selfyssingar áttu ágæt færi, meðal annars stangarskot. Heimamenn komust síðan yfir á 31. mínútu eftir klafs í vítateig Selfyssinga. 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega en á 60. mínútu bættu Fjölnismenn við öðru marki þegar Selfyssingar misstu boltann klaufalega og Fjölnismenn stungu honum innfyrir.

Selfyssingum gekk illa að skapa sér færi í seinni hálfleik. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson komst nálægt því að skora úr aukaspyrnu á 83. mínútu, en markvörður Fjölnis sá við honum.

Fjölnir bætti þriðja markinu við á lokamínútu leiksins og lokatölur urðu 3-0.

Þegar ein umferð er eftir af deildinni eru Selfyssingar í 8. sæti með 27 stig og munu örugglega ekki fara ofar. Liðið mætir KF í lokaumferðinni í leik sem hefur ekkert vægi þar sem KF er fallið. Gunnar Guðmundsson þjálfari ætti því að geta notað tækifærið til að gefa ungum og efnilegum heimamönnum tækifæri í byrjunarliðinu.

Fyrri greinDagur kartöflunnar í dag
Næsta greinÆgir og Hamar töpuðu – Stórsigur hjá KFR