Selfoss tapaði fyrir Fram

Selfoss laut í nýlagt parket þegar liðið mætti Fram á Ragnarsmótinu í handbolta í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld. Fram sigraði 23-27.

Framarar leiddu allan fyrri hálfleikinn en staðan var 14-16 í hálfleik. Selfyssingar jöfnuðu, 18-18, í upphafi seinni hálfleiks en í kjölfarið náði Fram fjögurra marka forskoti og þannig hélst munurinn nokkurn veginn til leiksloka.

Einar Pétur Pétursson átti fínan leik fyrir Selfoss og var markahæstur með 7 mörk. Jóhann Gunnarsson og Einar Sverrisson skoruðu 4, Matthías Halldórsson skoraði 3, Atli Kristinsson og Gunnar Ingi Jónsson 2 og Hörður Bjarnarson skoraði 1 mark. Helgi Hlynsson varði 9 skot og Sverrir Andrésson 8.

Hjá Fram var Jóhann G. Einarsson markahæstur með 6 mörk en Sigurður Þorsteinsson, Stefán B. Stefánsson og Róbert Aron Hostert skoruðu allir 4 mörk.

Í hinum leik kvöldsins skildu Valur og Afturelding jöfn, 23-23, en Valur leiddi 14-12 í hálfleik.

Finnur Ingi Stefánsson og Valdimar Þórsson voru markahæstir hjá Val með 6 mörk en Pétur Júníusson skoraði 6 mörk fyrir Mosfellinga. Næstir honum komu Jóhann Jóhannsson og Sverrir Hermannsson með 4 mörk.

Á morgun mætast Selfoss og FH kl. 18:30 og kl. 20 leika ÍR og Afturelding.