Selfoss tapaði en hélt 5. sætinu

Selfoss tapaði fyrir deildarmeisturum FH, 28-22, þegar liðin mættust í lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Selfoss mætir Aftureldingu í 8-liða úrslitum.

Selfyssingar voru betri í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti, 7-10, en FH náði að jafna, 11-11, á lokamínútu fyrri hálfleiks. Staðan var 12-12 í leikhléi.

Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum síðari hálfleiks og staðan var 15-15 þegar 38 mínútur voru liðnar. Þá gerðu FH-ingar 6-1 áhlaup og breyttu stöðunni í 21-16. Á þessum tímapunkti virtust heimamenn ætla að klára leikinn en Selfyssingar voru ekki sammála og minnkuðu muninn í 22-20 þegar níu mínútur voru eftir.

Nær komust Selfyssingar ekki því við tók sjö mínútna kafli þar sem liðið skoraði ekki mark og heimamenn náðu aftur sex marka forskoti. Lokatölur urðu 28-22.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 7/2 skot, Elvar Örn Jónsson skoraði 5, Hergeir Grímsson 3, Einar Sverrisson og Guðni Ingvarsson 2 og þeir Haukur Þrastarson, Rúnar Hjálmarsson og Alexander Egan skoruðu allir 1 mark.

Einar Vilmundarson varði 9/1 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 6.

Með sigrinum tryggði FH sér deildarmeistaratitilnn en þrátt fyrir tapið héldu Selfyssingar 5. sætinu með 24 stig. Selfoss mætir því Aftureldingu í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins en úrslitakeppnin hefst næstkomandi sunnudag.

Fyrri greinFalsaði „2018“ á númerið á óskoðuðum bíl
Næsta greinKartöfluvöfflur