Selfoss stóð í Stjörnunni

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði naumlega gegn Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Eftir herfilegan skell gegn ÍBV í síðustu umferð mættu Selfyssingar vel stemmdir til leiks í Garðabænum.

Selfoss komst í 1-3 og hafði frumkvæðið framan af fyrri hálfleiknum. Stjarnan jafnaði 6-6 þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar og heimakonur tóku forystuna eftir það, staðan var 12-10 í hálfleik.

Stjarnan náði fjögurra marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þær vínrauðu komu sterkar til baka og náðu forystunni, 15-16 þegar korter var eftir. Stjarnan sneri leiknum aftur sér í vil og hafði forskot til leiksloka, þó að Selfyssingar hafi aldrei verið langt undan. Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 23-22 en Stjarnan skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og sigraði 26-22.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9/3 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 4, Tinna Soffía Traustadóttir 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Karlotta Óskarsdóttir 2 og þær Rakel Guðjónsdóttir og Adela Jóhannsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Cornelia Hermansson varði 14/1 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 4 stig en Stjarnan er í 3. sæti með 19 stig.

Fyrri greinGintare tekur við þjálfun yngri flokka
Næsta greinÞórsarar upp úr fallsæti