Selfoss stöðvaði ekki Stjörnuna

Selfoss tók á móti Stjörnunni í Olís-deild kvenna í handbolta í Vallaskóla í dag. Gestirnir reyndust sterkari og sigruðu 23-29.

Stjarnan hafði frumkvæðið í leiknum frá fyrstu mínútu og leiddi 3-6 eftir tíu mínútna leik. Selfoss jafnaði 10-10 á tuttugustu mínútu en Stjarnan gerði þá 1-7 áhlaup og leiddi 11-17 í leikhléinu.

Seinni hálfleikurinn var ekki tilþrifamikill. Stjarnan hélt öruggu forskoti og munurinn varð mestur tíu mörk, 16-26, um miðjan hálfleikinn. Selfoss náði að minnka muninn niður í sex mörk áður en yfir lauk en lokatölur urðu 23-29.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk. Perla Albertsdóttir skoraði 5 mörk, Carmen Palamariu 3, Dijana Radojevic 3/1 og þær Arna Kristín Einarsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Þuríður Ingimarsdóttir skoruðu 1 mark hver.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 10/1 skot í marki Selfoss.

Selfoss er í 7. sæti Olís-deildarinnar með 2 stig.

Fyrri grein4,5 millj­arðar í nýja Ölfusár­brú og færslu veg­ar
Næsta greinSafna fyrir leikföngum og búnaði