Selfoss steinlá í Suðurlandsslagnum

Selfoss tapaði 0-6 þegar liðið fékk ÍBV í heimsókn í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Liðið er í harðri fallbaráttu þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

ÍBV var sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu leiksins. Þær sluppu í þrígang innfyrir vörn Selfoss á fyrstu tíu mínútunum og brutu svo ísinn með fyrsta marki leiksins á 12. mínútu þegar Kristín Sigurlásdóttir kom boltanum í netið.

Eftir markið var ÍBV meira með boltann en fátt var um færi. Selfosskonur sköpuðu lítið og reyndu helst máttlítil skot utan vítateigs.

Á 28. mínútu fengu Eyjakonur dauðafæri eftir fyrirgjöf frá hægri en Danka Podovac skaut hátt yfir markið af örstuttu færi. Fimm mínútum síðar brást Eyjaliðinu ekki bogalistin og Shaneka Gordon skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá vinstri þar sem ÍBV fékk gefins pláss á kantinum.

ÍBV var svo nærri búið að bæta þriðja markinu við á 39. mínútu eftir misheppnað innkast Selfyssinga en Podovac skaut í stöngina. Henni var ekki ætlað að skora í leiknum því mínútu síðar slapp hún ein innfyrir en Nicole McClure varði vel í marki Selfoss og staðan var 0-2 í hálfleik.

Strax á 5. mínútu síðari hálfleiks komst ÍBV í 0-3 og var uppskriftin að markinu eins og í fyrri mörkunum, sent bakvið bakverði Selfoss og þrumað fyrir markið. Nú var Vesna Smiljkovic mætt í teiginn og skoraði af stuttu færi.

Selfyssingum hafði ekki gengið mikið að skapa færi fram að þessu þar sem ákvarðanatakan á síðasta þriðjungi vallarins var oft röng. Á 56. mínútu undirbjó Guðmunda Óladóttir þó gott færi fyrir Evu Lind Elíasdóttur en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður ÍBV, sá við henni í þetta skiptið líkt og í öðrum martilraunum sem rötuðu á rammann.

Á 61. mínútu komst ÍBV í 0-4 með öðru marki frá Smiljkovic og þremur mínútum síðar kom Sigríður Lára Garðarsdóttir ÍBV í 0-5 úr enn einni skyndisókninni. Vesna Smiljkovic kórónaði svo þrennuna á 70. mínútu eftir frábært einstaklingsframtak og gott skot úr teignum.

Eftir sjötta markið fjaraði leikurinn snarlega út og miðjuþófið var allsráðandi. Eyjakonur áttu þó síðasta orðið en Kristín klúðraði dauðafæri á 87. mínútu og nokkrum sekúndum síðar varði Nicole meistaralega frá löndu sinni, Gordon.

Lokaflautið gall og 0-6 tap staðreynd hjá Selfoss sem nú á þrjá leiki eftir í deildinni. Næsti leikur liðsins er gríðarlega mikilvægur en það er útileikur á móti Fylki og síðan bíða tveir leikir gegn liðum úr toppbaráttunni, Þór/KA og Stjörnunni.