Selfoss steinlá heima

Selfyssingar steinlágu þegar þeir tóku á móti ÍBV í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Eyjamenn sigruðu 24-37.

Selfyssingar byrjuðu betur og leiddu 7-6 þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Þá kom hörmulegur kafli þar sem Eyjamenn skoruðu tíu mörk gegn einu og breyttu stöðunni í 8-16 en staðan var 9-18 í hálfleik. Sóknarleikur Selfyssinga var mjög stirður á þessum kafla og Eyjamenn fengu boltann alltof oft upp í hendurnar. ÍBV skoraði þannig átján mörk í öllum leiknum úr hraðaupphlaupum á móti þremur hraðaupphlaupsmörkum Selfoss.

Munurinn hélst svipaður í síðari hálfleik, gestirnir voru sterkari og alltaf skrefi á undan en munurinn varð mestur þrettán mörk undir lokin. Markmenn Eyjaliðsins voru í stuði en sömu sögu var ekki hægt að segja af markvörðum Selfoss.

Það hjálpaði Selfyssingum heldur ekki að vera fimm sinnum vísað af velli í leiknum en Eyjamenn fengu sína fyrstu og einu brottvísun þegar tvær sekúndur voru til leiksloka. Eyjamenn fengu sitt þriðja gula spjald á 24. mínútu leiksins og það sem eftir lifði leiks sáust níu brot sem eiga að geta leitt til brottvísunar en þeim var aldrei refsað.

Matthías Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Guðni Ingvarsson skoraði 5 mörk, Hörður Bjarnarson 4, Eyþór Lárusson 3, Gunnar Ingi Jónsson 2 og Andri Hallsson og Andri Már Sveinsson skoruðu báðir eitt mark.

Sverrir Andrésson varði 10 skot í leiknum og var með 25% markvörslu en Helgi Hlynsson varði 1 skot og var með 13% markvörslu.