Selfoss steinlá heima

Kvennalið Selfoss tapaði 0-6 þegar Pepsi-deildarlið Grindavíkur kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í B-deild Lengjubikarsins í dag.

Grindvíkingar komust í 0-2 á fyrstu tuttugu mínútum leiksins og bættu við þriðja markinu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Norður-írska landsliðskonan Lauren Brennan skoraði öll mörk gestanna í fyrri hálfleik.

Gestirnir voru áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Carolina Mendes bætti fjórða markinu við í upphafi seinni hálfleiks og Brennan skoraði svo tvö til viðbótar á síðustu tuttugu mínútunum.

Selfoss er enn án stiga í Lengjubikarnum og mætir næst Haukum á útivelli á föstudagskvöld.

Fyrri greinÁrborg valtaði yfir Snæfell/UDN
Næsta greinÞórsarar komnir í sumarfrí