Selfoss spáð beina leið upp

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þjálfarar, fyrirliðar og forráðamenn liðanna í Grill-66 deild kvenna í handbolta spá því að Selfoss muni endurheimta sæti sitt í efstu deild að ári og fara beina leið upp í Olísdeildina.

Spáin var opinberuð á kynningarfundi deildanna í hádeginu í dag og þar fengu Selfyssingar 239 stig af 242 mögulegum. Grótta, FH og HK koma þar á eftir en HK féll úr Olísdeildinni í vor, eins og Selfoss.

Í viðtali á kynningarfundinum sagði Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, að stefnan væri sett beint upp en það væri þó ekki hlaupið að því þar sem verkefnið væri krefjandi.

Selfoss hefur leik föstudaginn 22. september á útileik gegn Fjölni en fyrsti heimaleikurinn er föstudaginn 29. september gegn Fram U.

Í Olísdeild karla er Selfyssingum spáð 8. sæti en spámennirnir telja að FH muni hafa nokkra yfirburði en FH fékk 391 stig af 395 mögulegum í spánni.

Fyrri greinMikil uppbygging á Borg
Næsta greinSelfosskonur fallnar