Selfoss sótti stig á Akureyri

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu náði að knýja fram jafntefli á lokamínútunum þegar liðið heimsótti Þór/KA á Akureyri í kvöld.

Fyrri hálfleikur var jafn og Selfyssingar fengu ágætis færi, en það voru hins vegar heimakonur sem voru fyrri til að skora. Á 16. mínútu skoraði Lillý Rut Hlynsdóttir eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Selfyssingar voru mun sterkari í síðari hálfleik og sóknarþunginn jókst eftir því sem leið á. Þær vínrauðu fengu prýðileg færi sem fóru forgörðum, Donna-Kay Henry átti stangarskot á 75. mínútu og Selfoss komst oft í ákjósanlega stöðu í vítateignum.

Tveimur mínútum fyrir leikslok vann Dagný Brynjarsdóttir boltann og renndi honum inn á Guðmundu Brynju Óladóttur sem sneri á varnarmann og þrumaði boltanum í fjærhornið.

Þrátt fyrir jafnteflið er Selfoss enn í 3. sæti deildarinnar með 17 stig, en Valur er í 4. sæti með 15 stig og á leik til góða.

Næsti leikur Selfoss er gegn Fylki á heimavelli þann 14. júlí.

Fyrri greinGrænmetismarkaður í Hveragerði sjötta sumarið í röð
Næsta greinVance Hall til liðs við Þór