Selfyssingar sóttu góð stig í Stykkishólm í kvöld þegar þeir heimsóttu Snæfell í 1. deild karla í körfubolta. Lokatölur í Hólminum urðu 83-91.
Selfoss skoraði fyrstu átta stigin í leiknum og leiddi allan 1. leikhlutann. Snæfell svaraði fyrir sig með því að skora fyrstu sjö stigin í 2. leikhluta og heimamenn héldu forystunni fram að leikhléi, 43-41 í hálfleik.
Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu sautján stiga forskoti, 57-74. Spenna hljóp í leikinn í 4. leikhluta þegar Snæfell náði að minnka muninn í fjögur stig, 75-79, en þá tóku Selfyssingar aftur við sér og héldu forskotinu allt til leiksloka.
Kristijan Vladovic var stigahæstur Selfyssinga með 26 stig og 9 stoðsendingar, Steven Lyles skoraði 23 stig og Collin Pryor var framlagshæstur með 19 stig og 13 fráköst.
Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 12 stig en Snæfell er í 9. sætinu með 8 stig.
Snæfell-Selfoss 83-91 (20-22, 23-19, 19-33, 21-17)
Tölfræði Selfoss: Kristijan Vladovic 26/9 stoðsendingar, Steven Lyles 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Collin Pryor 19/13 fráköst, Tristan Máni Morthens 8/5 fráköst, Ari Hrannar Bjarmason 6/6 fráköst, Halldór Halldórsson 6, Pétur Hartmann Jóhannsson 3, Óðinn Freyr Árnason 4 fráköst.

