Selfoss sótti að Hetti í lokin

Tristan Máni Morthens. Ljósmynd: Selfoss karfa/BRV

Selfyssingar lögðu land undir fót í dag og heimsóttu Hött í 1. deild karla í körfubolta. Höttur sigraði 85-82 en tæpara mátti ekki standa eftir áhlaup Selfyssinga í lokin.

Höttur var skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn og staðan í leikhléi var 47-39. Selfyssingar byrjuðu betur í seinni hálfleik, jöfnuðu 53-53 og komust yfir í kjölfarið.

Allt var í járnum þegar fjórði leikhluti hófst en þar náði Höttur fljótlega tíu stiga forskoti. Selfyssingar minnkuðu muninn hratt á lokakaflanum en hefðu þurft nokkrar sekúndur í viðbót til þess að ná í skottið á Hattarmönnum.

Kristijan Vladovic var stigahæstur Selfyssinga með 26 stig, Collin Pryor skoraði 17 og tók 11 fráköst og Tristan Máni Morthens var með gott framlag, 12 stig og 5 fráköst.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 4 stig en Höttur er í 3. sæti með 8 stig.

Höttur-Selfoss 85-82 (28-18, 19-21, 14-22, 24-21)
Tölfræði Selfoss: Kristijan Vladovic 26, Collin Pryor 17/11 fráköst, Tristan Máni Morthens 12/5 fráköst, Ari Hrannar Bjarmason 11, Óðinn Freyr Árnason 5/5 fráköst, Fjölnir Morthens 4, Gísli Steinn Hjaltason 4, Pétur Hartmann Jóhannsson 3.

Fyrri greinMargir heimsóttu nýja Heilsugæslu Uppsveita
Næsta greinÞórsarar komnir á blað