
Topplið Selfoss vann stórsigur á botnliði Smára í 2. deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Leikurinn var algjör einstefna frá A-Ö, Selfoss var komið í 4-0 eftir níu mínútna leik og þær bættu fimm mörkum við fyrir leikhlé. Staðan var 9-0 í hálfleik.
Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleiknum. Selfoss raðaði inn mörkum og vann að lokum 16-0 sigur. Þetta er stærsti sigur Selfyssinga á Íslandsmótinu frá upphafi, eða síðan liðið vann Hveragerði 9-0 í B-deildinni árið 1984.
Juliana Paoletti skoraði fjögur mörk fyrir Selfoss, Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði þrennu í fyrri hálfleik og Lovísa Einarsdóttir skoraði sömuleiðis þrennu á átta mínútum í seinni hálfleik. Védís Ösp Einarsdóttir skoraði tvö mörk og þær Embla Dís Gunnarsdóttir, Auður Helga Halldórsdóttir, Ásdís Embla Ásgeirsdóttir og Katrín Ágústsdóttir skoruðu eitt mark hver.
Selfoss er í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga, 24 stig eftir átta leiki. Þar á eftir koma Völsungur með 21 stig og ÍH með 18 stig en þessi lið eru sömuleiðis með fullt hús stiga og eiga leiki til góða á Selfoss. Toppliðin þrjú eiga auk þess öll eftir að mætast innbyrðis áður en deildinni verður skipt í efri og neðri hluta.