Selfoss skoraði ekki síðustu fimmtán mínúturnar

Hin 14 ára gamla Tinna Sigurrós Traustadóttir hefur staðið sig vel í síðustu leikjum Selfoss. Hún skoraði 4 mörk í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss byrjaði betur í leiknum og náði mest fimm marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik, 9-4. Staðan var 14-11 í leikhléi.

Eyjakonur mættu ákveðnar inn í seinni hálfleikinn og náðu að jafna 15-15 þegar átta mínútur voru liðnar. Selfoss komst yfir aftur og leiddi 18-16 þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. 

Á einhvern ótrúlegan hátt tókst Selfossliðinu ekki að skora fleiri mörk í leiknum en boltinn fór ekki í netið í rúmar fimmtán mínútur. Selfoss skoraði aðeins fjögur mörk í seinni hálfleik en ÍBV skoraði síðustu níu mörkin í leiknum og vann öruggan sigur, 18-24.

Harpa Sólveig Brynjarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6/3 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoruðu báðar 4 mörk, Sarah Boye Sörensen 2 og þær Katla María Magnúsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu eitt mark hvor, auk þess sem Hulda var mjög öflug í vörninni. Skotnýting Selfossliðsins var afleit í leiknum en Perla og Tinna stóðu sig best, Perla með 100% nýtingu og Tinna með 66,7% nýtingu.

Katrín Ósk Magnúsdóttir stóð sig vel í marki Selfoss með 16 varin skot og 40% markvörslu.

Selfoss er í botnsæti deildarinnar með 4 stig en ÍBV í 4. sæti með 17 stig.

Þetta var síðasti leikur Selfoss í 2. umferð deildarinnar en að henni lokinni verður raðað niður í 3. umferðina.

Fyrri greinHamar gaf eftir í seinni hálfleik
Næsta greinJarðskjálfti norðan við Laufafell