Selfoss skoraði 44 mörk á Ísafirði

Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit Coca-Cola bikars karla í handbolta eftir stórsigur á Herði á Ísafirði í dag.

Hörður teflir ekki fram meistaraflokksliði í deildarkeppni og raunin varð sú að Ísfirðingarnir voru lítil fyrirstaða fyrir Selfoss.

Selfoss tók leikinn strax í sínar hendur og leiddi í hálfleik, 11-22, en lokatölur urðu 21-44.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk en Axel Sveinsson skoraði 9 og kunni greinilega vel við sig á sínum gamla heimavelli.

Leikurinn átti að fara fram um síðustu helgi en þá var ekki flugfært vestur. Selfyssingar lögðu hins vegar land undir fót í dag og óku vestur og til baka á langferðabifreið.

16-liða úrslitin verða leikin sunnudaginn 8. desember næstkomandi.

Fyrri greinBílveltur og óhöpp um alla sýslu
Næsta greinFanney með 34 stig í naumu tapi