Selfoss skellti Sindra – Hamar með sigur en Hrunamenn ekki

Gerald Robinson var stigahæstur Selfyssinga með 29 stig og 11 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Sindra á útivelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma sigraði Hamar Þór Akureyri en Hrunamenn töpuðu fyrir Skallagrími.

Selfyssingar byrjuðu betur á Hornafirði og leiddu 15-23 eftir fyrsta leikhluta. Liðin skoruðu svo jafnmörg stig í þremur síðustu leikhlutunum þannig að Selfoss fagnaði átta stiga sigri, 81-89. Staðan í hálfleik var 39-47. Sindramenn þjörmuðu að Selfyssingum undir lokin og þegar tæpar tvær mínútur voru eftir var staðan 79-80 en Selfyssingar voru öruggir í öllum sínum aðgerðum á lokamínútunum og unnu sætan sigur. Selfoss fékk gott framlag úr öllum áttum í kvöld en Gerald Robinson var stigahæstur með 29 stig og 11 fráköst.

Hamar lenti í óvæntum vandræðum með botnlið Þórs Ak en Hvergerðingar léku án Ragnars Nathanaelssonar í kvöld. Hamar byrjaði af krafti á Akureyri og staðan í hálfleik var 47-61. Í seinni hálfleik dró heldur saman með liðunum og Þórsarar minnkuðu muninn í fimm stig á lokamínútu leiksins. Hamar skoraði hins vegar þrjú síðustu stigin og tryggði sér 100-108 sigur. Jose Medina átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 46 stig og sendi 7 stoðsendingar.

Í Borgarnesi áttu Hrunamenn lengst af undir högg að sækja gegn Skallagrími. Gestirnir höfðu töglin og hagldirnar lengst af leiknum og leiddu 52-32 í hálfleik. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en í þeim fjórða spiluðu Hrunamenn frábæra vörn og náðu að minnka muninn í tíu stig, en það var allt of seint. Lokatölur urðu 92-82.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 36 stig, Selfoss í 6. sæti með 20 stig og Hrunamenn í 7. sæti með 18 stig.

Sindri-Selfoss 81-89 (15-23, 24-24, 21-21, 21-21)
Tölfræði Selfoss: Gerald Robinson 29/11 fráköst/5 stoðsendingar, Kennedy Clement 26/7 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 16/4 fráköst/11 stoðsendingar, Arnaldur Grímsson 9/9 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 7, Ísar Freyr Jónasson 2/6 fráköst.

Þór Ak.-Hamar 100-108 (23-36, 24-25, 27-24, 26-23)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 46/5 fráköst/7 stoðsendingar, Brendan Howard 25/11 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 18/10 fráköst, Mirza Sarajlija 10/5 stoðsendingar, Alfonso Birgir Gomez 4/6 fráköst, Haukur Davíðsson 4, Daníel Sigmar Kristjánsson 1/5 fráköst.

Skallagrímur-Hrunamenn 92-82 (26-17, 26-15, 28-25, 12-25)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 29/9 fráköst, Samuel Burt 17/15 fráköst, Þorkell Jónsson 10, Óðinn Freyr Árnason 9, Hringur Karlsson 5, Friðrik Heiðar Vignisson 5, Yngvi Freyr Óskarsson 4/6 fráköst, Haukur Hreinsson 3.

Fyrri greinHamar vann bikarupphitunina
Næsta greinTveimur skrefum á undan í lokin